Pole hefur verið, og heldur áfram að vera, risastór hluti af því hvernig ég legg rækt við sálina, það eflir sjálfstraustið og hvetur mig áfram.
Við báðum Rut Guðnadóttur nemanda í Pole Fitness level 3 og Pole dance um að segja okkur frá því hvernig það er að vera nemandi hjá Eríal Pole.
Ég er nýorðin 28 ára, er íslenskukennari við Verzló og rithöfundur. Er eilífðarstúdent, með fjórar háskólagráður (og stefni á fleiri einhvern tímann seinna). Það að vera kennari er fyrsta alvöru fullorðins djobbið mitt – þannig ég fór ekkert úr skóla, nú bara vinn ég þar!
Utan stúdíósins reyni ég að taka lífinu með ró, elska kósí daga (heitan kaffibolla og góða bók), fer í sjósund eins oft og mögulegt er og í ræktina inn á milli. Undir önnur áhugamál falla hryllingsmyndir, uppistand, að fara út að borða og að sofa út um helgar.
Ég æfi pole af mörgum ástæðum, þetta er mjög líkamlega krefjandi íþrótt sem hefur hjálpað mér að auka bæði styrk og liðleika. Ég held samt að stærsta ástæðan sé miklu frekar andleg eða tilfinningaleg – pole er ógeðslega skemmtilegt en fyrst og fremst er það svo styðjandi fyrir sjálfsmyndina. Þú mætir inn í algjöra öryggis-búblu, umvafin frábæru fólki bæði nemendum og þjálfurum, þar sem þú færð að ögra þér en samt að taka þig í sátt á sama tíma. Pole hefur verið, og heldur áfram að vera, risastór hluti af því hvernig ég legg rækt við sálina, það eflir sjálfstraustið og hvetur mig áfram. Í stúdíóinu getur maður farið úr því að finnast maður vera kynþokkafull gyðja yfir í að vera eins og belja á svelli á innan við fimm mínútum, og þá hlær maður bara og heldur áfram! Kennir manni að taka sjálfan sig ekki of alvarlega en býr líka til pláss til að vera einmitt ögrandi, sexí og sleppa sér.
Það skemmtilegasta á æfingum er hiklaust að ná einhverju trikki – sérstaklega ef maður er búinn að strögla við það í dálítinn tíma. Að fara á hvolf í fyrsta skipti, að vilja ekki deyja eftir þrjár sekúndur af basic pole sit. Að verða hægt og rólega betri og betri hvetur mann bara áfram og maður stekkur strax á næsta trikk – ef ég náði þessu, get ég þá gert það betur. á vinstri hlið, sleppt annarri eða jafnvel báðum höndum, o.s.frv.
Ég er með fullt af markmiðum – akkúrat núna er ég að vinna í chopper. Ég næ honum stundum, dagsformið er breytilegt, en oftast bara öðru megin og ekki alveg upp á tíu. Draumurinn er að geta farið úr einhverri stöðu á súlunni og þaðan yfir í chopper, ekkert tilhlaup eða neitt! Outside og Inside leg-hang eru líka spennandi markmið fyrir lv. 3 þar sem ég er núna.